Verðlaunahafarnir þrír og fulltrúar þriggja verkefna sem fræðsluráð vakti athygli á við verðlaunaafhendinguna.
Umsjónarmenn „FIRST LEGO League“ verkefnisins í Myllubakkaskóla, þau Íris Dröfn Halldórsdóttir, Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, Sveinn Ólafur Magnússon og Bryndís Guðmundsdóttir fengu Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar árið 2017. Einnig fengu verðlaun Gyða Margrét Arnmundsdóttir fyrir sérdeildina Ösp og leikskólinn Holt fyrir Erasmus+ verkefnið „Læsi í gegnum lýðræði“.
Átta nemendur úr 7. bekk Myllubakkaskóla sigruðu í LEGO hönnunarkeppninni á Íslandi og öðluðust við það keppnisrétt á skandinavísku First Lego League keppninni. Gyða Margrét Arnmundsdóttir stóð að stofnun sérdeildarinnar Aspar við Njarðvíkurskóla árið 2002 og Leikskólinn Holt hefur vakið athygli fyrir Erasmus+ verkefnið „Læsi í gegnum lýðræði.“
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar hafa verið veitt um árabil til kennara, kennarahóps eða starfsmanna í leik- og grunnskólum og tónlistarskóla bæjarins. Auglýst er eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 17 tilnefningar í ár um mörg áhugaverð verkefni. Fræðsluráð vakti á verðlaunaafhendingunni athygli á þremur þeirra, auk þeirra sem fengu verðlaun.