Verðlaunahafar í "Öskudagur got talent". Frá vinstri: Rúna Björg, Snorri Rafn, Sesselja, Aðalbjörg og Emilía Rós. Davíð Örn umsjónarmaður Fjörheima og Guðlaug María fræðslufulltrúi menningarmála fyrir aftan.
Fjölmargir búningaklæddir krakkar litu við í Fjörheimum á öskudag og tóku þátt í búningakeppni og hæfileikakeppni undir yfirskriftinni „Öskudagur got talent.“ Á þriðja tug atriða voru flutt á sviðinu í Fjörheimum frammi fyrir sérstakri dómnefnd sem valdi skemmtilegasta atriðið í 1.-4. bekk og 5. – 7. bekk.
Það var Snorri Rafn Wium Davíðsson sem hlaut verðlaun í yngri flokknum fyrir frábæran söng og systurnar Sesselja og Aðalbjörg Stefánsdætur í eldri flokknum en þær sungu og dönsuðu á eftirminnilegan hátt. Fyrir skemmtilegasta búninginn fékk verðlaun Emilía Rós Kristófersdóttir sem var trúðastelpa og fyrir skemmtilegasta heimatilbúna búninginn fékk verðlaun Rúna Björg Sverrisdóttir sem var í gervi Crayola litakassa en það er gaman að geta þess að hún hlaut þessi sömu verðlaun í fyrra einnig en þá var hún heimatilbúin pizzasneið.
Það er virkilega gaman að sjá þegar krakkarnir setja dálítið púður í búninga og atriðin sín en það er einmitt hugmyndin að baki þessum viðburði að hvetja börnin til þess.
Við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju og vitum að þau eru örugglega farin að huga að næsta öskudegi.