Bæjarhlið Reykjanesbæjar.
Mikil breyting hefur orðið á málefnum hælisleitenda í Reykjanesbæ við gerð nýs samkomulags við Útlendingastofnun. Reykjavíkurborg hefur einnig tekið að sér umsjón með hælisleitendum og hefur það létt mikið á þjónustuþörf í bæjarfélaginu.
Reykjavíkurborg þjónustar eingöngu einhleypa hælisleitendur og hefur því stór hópur ungra karlmanna sem sóttu um hæli hér á landi flutt til Reykjavíkur og fá þjónustu frá Reykjavíkurborg. Í Reykjanesbæ dvelur nú að meginuppistöðu til fjölskyldufólk.
„Sá hópur sem eftir er aðlagast betur samfélaginu og fær hér nauðsynlega þjónustu og stuðning,“ segir Hera Ósk Einarsdóttir hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar.
„Hælisleitendum í Reykjanesbæ hefur fækkað um helming frá því í desember síðastliðinn, en nú eru alls 79 hælisleitendur hér, þar af yfir 20 börn enda aðallega fjölskyldufólk eftir,“ segir Hera.
„Við stefnum að því að sá fjöldi sem nýtur þjónustu verði um 50, mest 70 á álagstímum. Samkomulagið við Útlendingastofnun gildir þó aðeins til næstu áramóta og verður þá metið hvernig tekist hefur til“.