Lið Heiðarskóla í Skólahreysti á verðlaunaafhendingunni.
Lið Heiðarskóla í Reykjanesbæ varð í öðru sæti í Skólahreysti en úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöll í gærkvöldi. Heiðarskóli hefur átt góðu gengi að fagna í keppninni en eins og kunnugt er sigraði lið skólans í keppninni á síðasta ári. Lið Heiðarskóla var skipað þeim Unnari Má Unnarssyni, Lilju Ingimarsdóttur, Arndísi Snjólaugu Ingvarsdóttur og Brynjari Frey Garðarssyni.
Skólahreysti er talsverð þrekraun þar sem keppt er ýmsum greinum er reyna á styrk og úthald keppenda.
Lindaskóli sigraði að þessu sinni með 67 stigum en Heiðarskóli fylgdi fast á eftir 63 stig. Lágafellsskóli varð í þriðja sæti. Um þrjú þúsund manns mættu í Höllina til að fylgjast með keppninni sem einnig var sjónvarpað beint á RÚV.