Mikið fjör var í árlegri hreyfiviku heilsuleikskólans Garðasels í Reykjanesbæ en hún fór fram dagana 13. – 16. júní sl. Farið var í vettvangsferðir út fyrir leikskólann, í heimsókn á nærliggjandi leikvelli og aðra áhugaverða staði.
Hinn vinsæli hjóla- og útidótadagur var á sínum stað í hreyfiviku og komu þá börnin með hjól, dúkkuvagn eða annað útidót. Bílastæði starfsfólks var rýmt og lokað af svo að börnin fengju nægt pláss til að hjóla um og leika sér og óhætt er að segja að börnin hafi notið sín vel. Einnig var haldinn útiíþróttadagur eins og fyrri ár þar sem íþróttakennari leikskólans setti upp ýmsar fjölbreyttar og skemmtilegar stöðvar á útisvæði. Veðrið lék við börn og starfsfólk þessa daga og var vikan sérlega vel heppnuð. Fjölskyldur barnanna voru hvattar til að taka þátt í hreyfivikunni og fengu öll börn Hreyfibók með sér heim þar sem þau skráðu niður hreyfinguna. Bókinni var síðan skilað í leikskólann að lokinni hreyfiviku.
Garðasel einn af 25 heilsuleikskólum landsins
Garðasel varð heilsuleikskóli árið 2012 og er leikskólinn meðlimur í Samtökum heilsuleikskóla. Fyrsti heilsuleikskólinn, Urðarhóll í Kópavogi, var stofnaður árið 1996 og Samtök heilsuleikskóla voru stofnuð árið 2005 en þá voru heilsuleikskólar á Íslandi aðeins fimm talsins. Nú eru 25 heilsuleikskólar starfandi á landinu.
Markmið heilsustefnunnar er að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Í heilsuleikskólum er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Samkvæmt markmiðum heilsustefnunnar er ætlunin að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar.
Frá árinu 1991 hefur Garðasel haft skipulagða hreyfingu fyrir öll börn í sal skólans og með því að gerast heilsuleikskóli hefur hreyfing orðið enn meiri og markvissari. Í leikskólanum er starfandi menntaður íþróttafræðingur sem sér um hreyfinguna.
Hreyfingin tekur á sér ýmsar myndir í leikskólanum. Á vormánuðum færist hreyfingin meira á útisvæðið sem býður upp á ýmsa möguleika til leikja. Hreyfivika er haldin í upphafi sumars og einnig tekur leikskólinn þátt í Heilsu- og forvarnarviku bæjarins í lok september ár hvert. Þá er haldinn inniíþróttadagur, hreystivöllurinn heimsóttur og farið er í íþróttaakademíuna ásamt því að fara í vettvangsferðir og annað sem vekur áhuga barnanna.
Starfsfólk í námsferð
Starfsfólk Garðasels fór í námsferð til Alicante í maí sl. þar sem það kynnti sér kennsluaðferðina Leikur að læra (LAL) en sú aðferð gengur út á að börnum á aldrinum 2-10 ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt. Leikskólinn hefur ávallt lagt áherslu á að börnin læri í gegnum leikinn og er því þessi kennsluaðferð góð viðbót við gott leikskólastarf. Garðasel hefur nú þegar hafið vinnu við að aðlaga allt námsefni sitt að þessari aðferð og verður auk þess í samstarfi við höfund kennsluaðferðarinnar, grunnskóla- og íþróttakennarann Kristínu Einarsdóttur, frá og með haustinu 2016. Leikskólinn stefnir að því að verða hluti af Leikur að læra-liðinu sem vinnur í nánu samstarfi við höfund aðferðarinnar. Með því er meðal annars boðið upp á námskeið og ráðgjöf til leikskóla auk þess sem foreldrar barnanna fá einnig að vera þátttakendur í starfinu. Frekari upplýsingar um aðferðina Leikur að læra má finna á heimasíðu þeirra leikuradlaera.is.