Barn af leikskólanum Gimli við gróðursetningu í Barnalundi ofan við Gónhól.
Föstudaginn 16. nóvember verður degi íslenskrar náttúru fagnað um allt land. Reykjanesbær og Skógræktarfélag Suðurnesja ætla í tilefni dagsins að efna til hópgróðursetningar kl. 16:15 - 17:30 fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Þá gefst íbúum tækifæri til að koma og leggja hönd á plóg og aðstoða við að gróðursetja um 400 birki plöntur í lúpínubreiðu á bakvið Reykjaneshöll og meðfram göngustíg að æfingasvæðinu.
Á staðnum verða plöntur, og verkfæri en auðvitað er íbúum frjálst að koma með eigin verkfæri t.d. plöntustafi.
Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur Reykjanesbæjar verður á staðnum til að veita leiðbeiningar, hjálpa til og einnig til skrafs og ráðagerða fyrir þá sem hafa áhuga á því. „Það er tilvalið fyrir fjölskyldur að koma saman og láta gott af sér leiða og sýna börnunum hvernig hægt er að bera sig að við gróðursetningu,“ segir Berglind um framtakið.