HS Veitur hf (gamla Hitaveita Suðurnesja) sem er að 66,7% hluta í eigu
Reykjanesbæjar, skilaði 321 milljón króna hagnaði á árinu 2010. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 920 milljónum króna. Rekstrartekjur fyrirtækisins á árinu 2010 námu 4,2 milljörðum kr.
Á aðalfundi HS Veitna hf sem haldinn var í Stapa í Reykjanesbæ fimmtudaginn 24. mars kom fram í máli Árna Sigfússonar stjórnarformanns að í ljósi sterkrar lausafjárstöðu hefði stjórn félagsins ákveðið að greiða niður skuldir félagsins, umfram lánaskilmála, að upphæð 900 milljónir króna og lækka þannig heildarskuldir um 15%. Eigið fé HS Veitna hf nemur 8,7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall er 53%.
HS Veitur hf eiga kaldavatnslindir í Svartsengi og selja heitt og kalt vatn til allra heimila og fyrirtækja á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. Auk þess sér fyrirtækið um dreifingu á raforku á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Álftanesi, Árborg og Vestmannaeyjum og hluta Garðabæjar.
Auk Reykjanesbæjar á Orkuveitan 16,6% hlut í fyrirtækinu og Hafnarfjörður 15,4% .
Á aðalfundinum var ný stjórn kjörin en í henni sitja.
Frá Reykjanesbæ:
Böðvar Jónsson (formaður), Árni Sigfússon (varaformaður), Magnea Guðmundsdóttir (ritari), Guðný Kristjánsdóttir og Friðjón Einarsson.
Frá Hafnarfirði:
Eyjólfur Sæmundsson.
Frá Orkuveitu Reykjavíkur:
Páll Erland.