Hundruð BAUNa hugmynda frá börnum

Reykjanesbær náði nýlega þeim merka áfanga að hljóta formlega viðurkenningu frá UNICEF sem barnvænt sveitarfélag og er einungis þriðja sveitarfélagið á landinu til þess. Í takt við það gafst börnum og ungmennum á dögunum kostur á því að koma á framfæri hugmyndum sínum um dagskrárliði á BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ. Hugmyndaöflunin er liður í því að efla aðkomu barna að hátíðinni og hlusta á raddir þeirra, sem eru mikilvægar í samfélaginu og ekki síst þegar kemur að því að búa til hátíð fyrir þau. BAUN hefur það að markmiði að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar ásamt því að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Alls bárust hvorki fleiri né færri en 278 svör en hvert svar innihélt margar frábærar og fjölbreyttar hugmyndir. Nú er unnið hörðum höndum að því að láta sem flestar hugmyndir barna og ungmenna í Reykjanesbæ verða að veruleika á BAUN sem fram fer 2. - 11. maí næst komandi.

Þær hugmyndir sem verða að veruleika verða merktar sérstaklega í dagskrá BAUNar sem kemur á vefinn baun.is í lok apríl.