Hvatningarverðlaun fræðsluráðs veitt
Mánudaginn 8. júní voru Hvatningarverðlaun fræðsluráðs afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn. Elíza M. Geirsdóttir Newman og Unicef teymi Háaleitisskóla hlutu Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar árið 2020. Verkefnið sem unnið er í Háaleitisskóla ber heitið Réttindaskóli Unicef.
Heiti verkefnis: Réttindaskóli UNICEF
Skóli sem það tilheyrir: Háaleitisskóli
Nöfn þeirra sem standa að verkefninu: Elíza M. Geirsdóttir Newman og UNICEF teymi Háaleitisskóla
Lýsing á verkefninu: Í haust hóf Háaleitisskóli þátttöku í tilraunaverkefni sem miðar að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í allt skóla- og frístundastarf. Þetta er alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur síðastliðinn áratug verið innleitt með góðum árangri í þúsundum skóla um allan heim.
Að vera Réttindaskóli UNICEF felur í sér að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í öllu skólastarfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, efla jákvæð samskipti, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins.
Réttindaskólinn passar vel inn í yfirlýsta stefnu Háaleitisskóla um að vera fjölmenningarskóli þar sem allir fá að vera eins og þeir eru. Hann stuðlar að betri líðan nemenda, valdeflingu, samkennd og samvinnu meðal nemenda og starfsfólks þar sem allar raddir fá að heyrast. Háaleitisskóli er fyrstur skóla á Suðurnesjunum til að innleiða þessa stefnu og verður vonandi öðrum skólum til hvatningar.
Einnig hlutu fjögur önnur verkefni sérstaka viðurkenningu fræðsluráðs.
Heiti verkefnis: Hænurnar á Akri
Skóli sem það tilheyrir: Leikskólinn Akur
Nöfn þeirra sem standa að verkefninu: Sigrún Gyða og starfsfólk leikskólans Akurs
Lýsing á verkefninu: Starfsfólk leikskólans stóð að byggingu hænsnakofa á lóð skólans og hafa börnin fengið að fylgjast með ferlinu alveg frá því fyrstu eggin og ungarnir komu í hús. Börnin fá einstakt tækifæri til að kynnast dýrum og læra að umgangast þau. Á tímum COVID-19, þar sem börn komu minna í skólann, greip starfsfólk skólans á það ráð að setja inn upplýsingar, myndir og myndbönd af eggjunum og ungunum á Facebook hóp þannig að börn og foreldrar gátu fylgst með heiman að frá sér.
Heiti verkefnis: Lærum saman í gegnum orðin
Skóli sem það tilheyrir: Háaleitisskóli
Nöfn þeirra sem standa að verkefninu: Jóhanna Helgadóttir og Jurgita Milleriene ásamt öðrum kennurum Háaleitisskóla
Lýsing á verkefninu: Þetta er þróunarverkefni sem Jóhanna og Jurgita hófu haustið 2018 í samfélagsfræði með 6. bekk
Tilgangur verkefnisins er:
- Að auka orðaforða nemenda
- Efla orðskilning nemenda
- Kenna nemendum aðferð í að auka eigin orðaforða
- Skipuleggja vinnu með hugtökum fyrir nemendur með mismunandi námsgetu.
Verkefnið nýttist mjög vel skólaárið 2018-2019 í samfélagsfræði og fljótlega vildu aðrir kennarar taka upp aðferðina. Haustið 2019 innleiddu stjórnendur skólans aðferðafræðina í öllum námsgreinum.
Heiti verkefnis: Áskorun & ævintýri í garðinum okkar
Skóli sem það tilheyrir: Tjarnarsel
Nöfn þeirra sem standa að verkefninu: Kennarar, börn og foreldrar í Tjarnarseli
Lýsing á verkefninu: Í janúar 2013 hóf þróunarverkefnið Áskorun og ævintýri göngu sína í Tjarnarseli sem fólst í að umbylta flötu útisvæði skólans í náttúrulegan garð þar sem áskoranir og ævintýri biðu barnanna dag hvern.
Markmið verkefnisins var að breyta útileiksvæði Tjarnarsels og skapa öruggt, náttúrulegt umhverfi sem hvetur börnin til leiks, rannsókna, sköpunar og hreyfingar.
Garðurinn er sífelldri þróun en í byrjun júní ár hvert er haldinn vinnudagur þar sem kennarar, börn, fjölskyldur þeirra og aðrir velunnarar skólans taka höndum saman og búa hann undir sumarið. Það er smíðað og lagfært, gróðursett og snyrt svo fátt sé nefnt.
Heiti verkefnis: Bugsy Malone á sviði Heiðarskóla
Skóli sem það tilheyrir: Heiðarskóli
Nöfn þeirra sem standa að verkefninu: Esther Níelsdóttir, Hjálmar Benónýsson, Guðný Kristjánsdóttir og nemendur í árshátíðarleikriti.
Lýsing á verkefninu: Útfærsla á söngleiknum Bugsy Malone var sett á svið Heiðarskóla í vor. Rúmlega 20 nemendur tóku þátt og úr varð tilkomumikil sýning með glæsilegum söng og dansatriðum. Í ár leit út fyrir að takmarkanir á skólastarfi í samkomubanni myndu koma í veg fyrir að söngleikurinn Bugsy Malone yrði settur á svið en einstaklega áhugasamir og metnaðarfullir nemendur og kennarar blésu til sóknar við afléttingu takmarkana og settu verkið á svið með miklum glæsibrag.
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar hafa verið veitt um árabil til kennara, kennarahóps eða starfsmanna í leik- og grunnskólum og tónlistarskóla bæjarins. Auglýst er eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 18 tilnefningar í ár um mörg áhugaverð verkefni.