Eysteinn Eyjólfsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs fylgdi endurskoðuðu skipulagi úr hlaði á íbúafundinum.
Stærstu breytingarnar í endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015-2030 er minna umfang íbúðabyggða og þétting hennar þar sem ekki er gert ráð fyrir eins mikilli íbúafjölgun nú og gert var ráð fyrir í núgildandi skipulag, 2008-2024. Þá er einnig gert ráð fyrir að dregið verður úr nýjum atvinnusvæðum frá því sem áður var og lagt til að falla frá þeim hugmyndum að breyta atvinnusvæðum í byggð í íbúðarsvæði. Þetta kom fram á íbúafundi í Bergi Hljómahöll í gær. Fólki gefst kostur á að senda inn athugasemdir vegna skipulagsins til 20. janúar 2017.
Þó íbúafjölgun hafi verið hröð að undanförnu er gert ráð fyrir 1,5% fjölgun íbúa að meðaltali til ársins 2030. Núgildandi skipulag gerði ráð fyrir 3,3% íbúafjölgun til ársins 2024. Stærstu breytingarnar í endurskoðuðu skipulagi er því fækkun íbúðasvæða því Dalshverfi tekur enn við um 400 íbúðum og Hlíðarhverfi er deiluskipulagt. Stapahverfi og hverfi sunnan Reykjanesbrautar eru því ekki lengur á aðalskipulagi. Á fundinum í gær kom fram að þótt fjölgun í bænum fari fram úr þeim 1,5% sem gert er ráð fyrir er Reykjanesbær vel settur með skipulögð svæði. Áhersla er á þéttingu byggðar, m.a. með að nýta fyrrum atvinnusvæði og vannýtt svæði fyrir íbúabyggð í núverandi byggð.
Annar veigamikill þáttur í endurskoðuðu aðalskipulag er bætt umferðaröryggi á Reykjanesbraut frá Innri Njarðvík að Flugstöð með hringtorgum, tengibrautum og breytingum á legu gatna á fjölförnustu stöðunum. Þær breytingar verða að sjálfsögðu að vera í samræmi við samgönguáætlun og aðgerðir Vegagerðarinnar. Þá hafa breytingar orðið á verslunar- og þjónustusvæðum miðað við fyrr aðalskipulag. Þess má geta að allir lóðir við verslunar- og þjónustusvæðið Flugvelli hefur nánast öllum verið úthlutað og munu framkvæmdir við það hverfi hefjast eftir áramótin. Í endurskoðuninni er gert ráð fyrir að ekki verði frekari útblástursmengun og að haftasvæðið sem nú er í gildandi aðalskipulagi verði ekki stækkað. Þar með er ekki gert ráð fyrir frekari losun á flúor og brennisteinsdíoxíð á iðnaðarsvæði í Helguvík, en þá er gert ráð fyrir bæði annarri kísilmálmverksmiðju og álveri.
Vinna við endurskoðað aðalskipulag hófst með íbúaþingi í Hljómahöll í september 2015. Þar var tekið á móti hugmyndum íbúum sem síðan var unnið úr. Í framhaldi var skipaður stýrihópur sem m.a. vann úr hugmyndunum.
Hér má nálgast auglýsingu um endurskoðað aðalskipulag og fylgiskjöl.
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissvið fór yfir helstu breytingar í endurskoðuðu aðalskipulagi á íbúafundinum í gær.