Mynd tekin af heimasíðu barnvænna sveitarfélaga.
Staðan á innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það sem er framundan.
Líkt og greint var frá á vef Reykjanesbæjar þann 10. september síðastliðinn hefur Reykjanesbær hafist handa við innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eins og þar kemur fram snúa aðgerðir Reykjanesbæjar einkum að bæjarkerfinu sjálfu, að gera það aðgengilegra fyrir börn og tryggja að raddir barna séu teknar með í umræðu um málefni sem snerta þau. Síðustu vikur hefur stýrihópur verkefnisins unnið að því að safna saman tölfræðilegum gögnum um börn og svara gátlistum sem fylgja fimm grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga. Vinnan hefur leitt í ljós að mörg tækifæri eru til úrbóta í málum sem varða börn, einkum þátttöku barna í ákvarðanatöku í málum sem snúa að þeim. Eitt af markmiðum barnvænna sveitarfélaga er einmitt að efla börn í að taka þátt í ákvörðunum, en til að það geti orðið að veruleika þarf að skapa þeim vettvang þar sem þau geta komið skoðunum sínum á framfæri, á sínum eigin forsendum.
Á næstu vikum verður spurningakönnun lögð fyrir starfsfólk, börn og ungmenni í 5.-10. bekk og börn á aldrinum 16 til 18 ára í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem búsett eru í Reykjanesbæ. Öllum þátttakendum og foreldrum verður sent kynningarbréf, með hæfilegum fyrirvara, áður en könnunin verður lögð fyrir. Markmiðið með könnuninni er meðal annars að kanna þekkingu á Barnasáttmálanum og hvort Reykjanesbær sé að framfylgja ákvæðum sáttmálans. Í byrjun næsta árs verður svo haldið ungmennaþing þar sem börnum og ungmennum gefst kostur á að koma sínum skoðunum á framfæri. Þingið verður opið öllum börnum á aldrinum 12 til 18 ára sem vilja taka þátt og þar fá börnin tækifæri til að tjá skoðanir sínar og viðhorf til sveitarfélagsins og þeirrar þjónustu sem það veitir. Á fundinum eru börnin meðal annars spurð að því hvað þau vilja hafa áhrif á innan sveitarfélagsins, hvernig þeim henti best að koma skoðunum sínum á framfæri og hvernig Reykjanesbær ætti almennt að standa að samráði við ungt fólk. Ungmennaþingið verður nánar auglýst síðar.
Við hvetjum alla til að kynna sér Barnasáttmálann og barnvæn sveitarfélög UNICEF. Þá hvetjum við einkum foreldra til að ræða við börnin sín um sáttmálann.
Upplýsingar má nálgast á www.barnasattmali.is, www.barnvaensveitarfelog.is og www.unicef.is