Nemendurnir ásamt skólastjóra FS og aðstandendum samkeppninnar.
Nemendur á listnámsbraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengu það verkefni í vetur að vinna tillögur að útilistaverkum við strandleiðina í Reykjanesbæ undir stjórn kennara síns, Írisar Jónsdóttur. Nemendur voru sendir út af örkinni til að kynna sér þau verk sem fyrir voru í bænum og einnig skoðuðu þau og upplifðu strandleiðina. Valgerður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri menningarsviðs Reykjanesbæjar kom síðan í heimsókn í kennslustund og kynnti það helsta sem nemendur gætu nýtt sér við hugmyndavinnu listaverkanna og afhenti þeim m.a. kort af bænum þar sem sjá má öll uppsett listaverk og staðsetningu þeirra í bæjarfélaginu og ýmis önnur upplýsingarit. Einnig kynntu listnámsnemendur sér þjóðsögur frá svæðinu, öfluðu sér upplýsinga af netinu og nýttu eigin upplifun og reynslu frá svæðinu. Nemendur skissuðu hinar ýmsu hugmyndir og þegar þeir voru komnir með lokaniðurstöðu bjuggu þeir til líkön af verkunum og upplýsingaspjöld sem þeir kynntu svo fyrir bæjarstjóra, menningarráði og skipulagsráði á sérstökum kynningarfundi í Duushúsum. Að sögn Valgerðar var góður rómur gerður að vinnu nemendanna og leitað verður leiða til að koma einhverju þessara verka í framkvæmd. Verkin verða til sýnis í Duushúsum á barnahátíð og eru íbúar hvattir til að koma og skoða þessar skemmtilegu hugmyndir.
Nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á listnámsbraut sem tóku þátt í verkefninu.
Agatha Mist Atladóttir
Alexander Róbertsson
Daníel Snær Jónasson
Guðrún Sveinsdóttir
Hjörtur Már Atlason
Lovísa Björgvinsdóttir
Magnús Helgi Einarsson
Ylfa Rán Erlendsdóttir