Kristiansand sendir jólatré í síðasta sinn
Ákveðin tímamót verða n.k. laugardag þegar ljósin á vinabæjarjólatrénu frá Kristiansand verða tendruð í fimmtugasta og áttunda sinn en það verður jafnframt í síðasta skiptið sem það gerist. Ástæðan er sú að fyrr á þessu ári sleit Kristiansand formlegu vinabæjarsamstarfi við norræna vinabæi sína Reykjanesbæ, Kerava og Trollhättan en bærinn sameinast á þessu ári tveimur nágrannasveitarfélögum og endurskoðar af því tilefni alþjóðlegt samstarf sitt. Eftir sem áður verður gott á milli bæjanna eins og bæjaryfirvöld í Kristiansand sýna í verki með því að senda okkur þessa kærkomnu jólagjöf í síðasta sinn.
Í ár verður það nemandi úr 6. bekk í Háaleitisskóla sem fær þann heiður á laugardag að kveikja ljósin á jólatrénu á Tjarnargötutorgi. Það verður Mats Benestad sendiráðsritari í sendiráði Noregs á Íslandi sem flytur kveðju frá Kristiansand en svo skemmtilega vill til að hann er einmitt þaðan. Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, veitir trénu viðtöku fyrir hönd íbúa og ávarpar viðstadda.
Ævintýrapersónur úr Leikhópnum Lottu og jólasveinar líta við
Dagskráin verður með þeim hætti að lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur jólalög við tréð á meðan gesti drífur að. Svo fáum við heimsókn úr Ævintýraskógi Leikhópsins Lottu auk þess sem nokkrir jólasveinar taka forskot á sæluna og dansa í kringum tréð með börnunum.
Boðið verður upp á heitt kakó og piparkökur til að halda hita á mannskapnum.
Dagskráin hefst kl. 17 og verður lokið kl. 18.