Kvikusöfnun undir fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga. Mynd fengin af heimasíðu RÚV.
Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga. Bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sem allir sitja í stjórn Almannavarna, voru ásamt öðrum lykilaðilum á fundi í Reykjavík fyrr í dag vegna þessa. Grannt er fylgst með gangi mála og verða upplýsingar uppfærðar um leið og þær berast. Ekki er talin ástæða til annars en að íbúar haldi ró sinni á meðan engar nýjar upplýsingar koma fram.
Frétt 26. janúar kl. 17:22
Almannavarnir hafa virkjað óvissustig vegna mögulegrar kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga, en þar hefur jarðskjálftahrina verið í gangi að undanförnu. Landris hefur þar mælst síðustu daga. Búið er að boða til íbúafundar í Grindavík á morgun þar sem farið verður nánar yfir stöðuna. Samhliða hefur Veðurstofa Íslands fært litakóða fyrir flug á gult.
Í tilkynningu frá sérfræðingum Veðurstofunnar kemur fram að landrisið er óvenju hratt eða um 3-4 mm á dag. Það er orðið um tveir sentímetrar þar sem mest er. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi. Miðja þess virðist vera á Reykjanesskaganum, rétt vestan við fjallið Þorbjörn.
Ef skýringin er kvikusöfnun er hún enn sem komið er mjög lítil en gróft mat er að rúmmálið sé af stærðargráðunni 1 milljón rúmmetrar. Þetta er niðurstaða samráðsfunda vísindamanna sem haldnir voru á Veðurstofunni nú í morgun og eftir hádegi.
Sambærilegur landrishraði ekki mælst á svæðinu
Nákvæmar mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaganum ná yfir tæplega þrjá áratugi. Á því tímabili hefur sambærilegur landrishraði ekki mælst. Atburðarásin er því óvenjuleg fyrir svæðið, miðað við reynslu undanfarinna áratuga.
Jarðskjálftahrinan sem mælst hefur síðustu daga hafa fundist vel á Reykjanesskaganum og allt norður í Borgarnes. Stærstu skjálftarnir mældust 22. janúar og voru 3,7 og 3,6 að stærð. Dregið hefur úr hrinunni síðustu daga, en slíkar hrinur eru algengar á svæðinu og því getur þessi ekki talist óvenjuleg ein og sér.
„Það að landris mælist samfara jarðskjálftahrinunni, gefur tilefni til þess að fylgjast sérstaklega náið með framvindu á svæðinu,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Mögulegar sviðsmyndir settar upp
Búið er að setja upp mögulegar sviðsmyndir, án þess að hægt sé að segja til um hver þeirra er líklegust eða hversu hratt atburðarásin mun þróast:
Ef landris stafar af kvikusöfnun:
- Kvikusöfnun hættir mjög fljótlega án frekari atburða.
- Kvikusöfnun heldur áfram á sama stað og hraða í einhvern tíma án þess að til stærri atburða komi
- Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots
- Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots og eldgoss (hraungoss á sprungu).
- Kvikusöfnun veldur jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á þessu svæði
Ef landris stafar ekki af kvikusöfnun:
- Landrisið gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni og þar með hugsanlega stærri
Íbúafundur hefur verið boðaður
Boðað hefur verið til íbúafundar í Grindavík kl. 16 á morgun, mánudaginn 27. janúar. Á íbúafundinum verður farið nánar yfir stöðu mála með fulltrúum Almannavarna, viðbragðsaðila og vísindamanna. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar hefur aukið eftirlit með svæðinu. Þar að auki verður eftirlit aukið með uppsetningu fleiri mælitækja til að vakta og greina betur framvindu atburða.