Tónleikar og listsýningar á List án landamæra 2011
Sveitarfélögin á Suðurnesjum taka nú þátt í hátíðinni List án landamæra í 3. sinn. Markmið hátíðarinnar er fjölbreytni, að sjá tækifæri í stað takmarkana. Hátíðin er vettvangur til að koma listsköpun fólks með fötlun á framfæri og síðast en ekki síst að koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks.
Nú þegar er undirbúningsvinna fyrir hátíðina komin í fullan gang og víða um bæinn er verið að skapa listaverk sem sýnd verða á hátíðinni sem verður haldin 29. apríl - 6. maí. Einnig er fyrirhugað að halda tónleika þar sem fram koma fatlaðir jafnt sem ófatlaðir listamenn. Eru allir sem áhuga hafa á þátttöku í slíkum tónleikum með einhverjum hætti hvattir til að stíga fram og senda póst á listasafn@reykjanesbaer.is fyrir 11. mars n.k. Hér gæti verið um afar skemmtilegan viðburð að ræða og gott tækifæri fyrir fólk sem langar til að koma fram. Því fjölbreyttari hópur, því skemmtilegra.
Undirbúningur og stjórn tónleikanna verður í höndum fagfólks í tónlist.