Nú er undirbúningur fyrir Listahátíð barna sem staðið hefur síðan í haust að ná hámarki. Þetta verður í 6. sinn sem hátíðin verður haldin og hefur vegur hennar vaxið með hverju árinu sem bæst hefur við.
Hátíðin var allt til ársins 2010 samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og leikskóla bæjarins sem sett hafa upp sýningu í Duushúsum og er mörgum síðasta sýning enn í fersku minni þegar Listasalnum var breytt í neðansjávarveröld með kynjaskepnum hafsins.
Sú nýlunda varð svo í fyrra að grunnskólar bæjarins slógust með í för og sýndu verk eftir nemendur sína víðs vegar um bæinn undir yfirskriftinni „Listaverk í leiðinni" sem vakti mikla lukku.
Í ár verður leikurinn endurtekinn en þann 20. apríl, daginn fyrir sumardaginn fyrsta, verður Barnahátíð í Reykjanesbæ sett og um leið Listahátíð barna með verk eftir öll leikskólabörn bæjarins í Duushúsum og valin verk eftir grunnskólanemendur víðs vegar um bæinn.
Myndin er tekin á undirbúningsfundi Listasafnsins og leikskólanna en þarna er samankominn hópur frábærra kennara sem vinna að þessu skemmtilega verkefni af miklum áhuga.