Brot af líkani af Ytri Njarðvík.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust frá safnaráði á dögunum að Byggðasafn Reykjanesbæjar og Listasafn Reykjanesbæjar eru í hópi 39 safna á landinu sem hafa hlotið opinbera viðurkenningu safns skv. safnalögum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í viðurkenningunni felst að söfnin uppfylla þau skilyrði sem safnaráð setur til að söfnin eigi möguleika á að sækja um rekstrarstyrki úr safnasjóði sem er alger forsenda fyrir tryggum rekstri þeirra.
Til að hljóta slíka viðurkenningu þurfa söfnin að uppfylla margvíslega skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf. Markmiðið með viðurkenningunni er að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verið skilað óspilltum til komandi kynslóða, að veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.
Þetta eru því afar ánægjuleg niðurstaða og um leið viðurkenning á því að söfnin eru að starfa á faglegan hátt. Þess má í framhjáhlaupi geta að Byggðasafn Reykjanesbæjar og Listasafn Reykjanesbæjar eru einu söfnin á Suðurnesjum sem hlotið hafa þessa viðurkenningu.