Litríkari Reykjanesbær

Reykjanesbær verður enn litríkari  í lok sumars þegar Listahópurinn hjá Listasmiðju Reykjanes hefur málað götulist víða um bæjarfélagið. Verkefnið, sem ber heitið "Málum söguna saman er ætlað að endurspegla sögu bæjarins og umhverfisins á skapandi og listrænan hátt. Götulistaverkin eru hluti af verkefnum sem hlutu styrk frá 30 ára afmælissjóði Reykjanesbæjar. Umsjónarmaður Listasmiðju Reykjanes, Omar Rondon, stýrði verkefninu og Seweryn Chwala, sem hefur komið að mörgum vegglistum bæjarins, er aðallistamaður verkefnisins.

Listahópurinn, sem samanstendur af 20 ungmennum á aldrinum 13-16 ára, er fjölbreyttur og einkennist af fjölmenningarlegum bakgrunni. Síðustu sumur hafa þau málað listaverk í kringum lóð Fjörheima og einnig í skrúðgarðinum, og nú munu þau færa list sína enn víðar um bæinn. Listasmiðja Reykjanes býður upp á námskeið allt árið.

Nýju götulistaverkin eru staðsett við höfnina í Keflavík, við Kökulist í Njarðvík og á Háaleitisskóla, á Ásbrú. Markmið verkefnisins er að heiðra sögu Reykjanesbæjar, fegra bæinn og styðja við fjölbreytileikann í sinni breiðustu mynd. Veggirnir eru einnig merktir með QR kóðum sem, þegar þeir eru skannaðir, veita upplýsingar um sögu bæjarins og bjóða upp á að hlusta á lög tengd bænum. Listaverkið í Háaleitisskóla er örlítið frábrugðið því sem er í Keflavík og Njarðvík en listamennirnir aðlöguðu hugmyndina sína að gildum skólans og slagorðinu okkar hjá Reykjanesbæ "Í krafti fjölbreytileikans. Persónurnar á myndinni eru krakkar af ólíkum uppruna og QR kóðarnir vísa ekki bara til sögu Ásbrúar og fortíðar hennar sem her-svæðis, heldur einnig til fjölbreytileika íbúa.

Með þessu verkefni fengu ungmennin tækifæri til að fegra sitt nærumhverfi og taka virkan þátt í samfélaginu. 

Við hvetjum alla bæjarbúa til að skoða þessi glæsilegu listaverk sem nú prýða bæinn okkar. Það verður án efa skemmtilegt að sjá hvernig sagan og fjölbreytileikinn birtast í verkunum sem ungu listamennirnir okkar hafa skapað!