Ljósanótt 2018: Vinátta - Væntumþykja - Virðing

Pössum upp á að börnin séu ekki eftirlitslaus. Ljósmynd: OZZO
Pössum upp á að börnin séu ekki eftirlitslaus. Ljósmynd: OZZO

Ljósanótt er fjölskylduhátíð þar sem allir geta fundið sér skemmtun við hæfi. Miðbærinn okkar iðar af mannlífi á fimmtudagskvöldinu þegar vinahópar taka sig saman og gera sér dagamun. Samheldni og gleði barnanna við setningarathöfn hátíðarinnar hefur fengið okkur öll til að hrífast með undanfarin ár og verður gaman að fylgjast með hvernig til tekst með breytt fyrirkomulag í ár. Árgangagangan kallar saman gamla og nýja vini og fjölskyldur njóta sín á mörgum viðburðum hátíðarinnar sem nær hámarki á laugardagskvöldinu.

Frá upphafi hefur samheldni verið leiðarljós í dagskrá Ljósanætur. Fjölskyldur og vinir eru saman og þannig viljum við hafa það. Skemmtum okkur með börnunum okkar og verum þeim góð fyrirmynd. Pössum upp á að börnin séu ekki eftirlitslaus úti eftir lögbundinn útivistartíma, hvort sem það er Ljósanótt eða önnur kvöld. Pössum líka upp á hvert annað, gerum það sem við getum til þess að allir fái notið gleðinnar og samverunnar.

Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað ört og mikið undanfarið. Mikið er af nýjum íbúum og er Ljósanæturhátíðin kjörin til þess að bjóða þá velkomna. Sýnum nýjum íbúum virðingu og væntumþykju – bjóðum alla velkomna.

Reykjanesbær er fjölmenningarsamfélag. Hér býr fólk sem hefur ólíkan menningaruppruna og sögu en hefur jöfn réttindi og tækifæri í samfélaginu. Enginn skal vera afskiptur og engum á að líða eins og hann sé minna mikilvægur en aðrir íbúar. Það er margsannað að vinátta og væntumþykja er besta forvörnin. Með virðingu, væntumþykju og vináttu getum við sýnt nýju íbúunum að hér viljum við að öllum líði vel. Í því felst ekki aðeins forvörn heldur líka almenn farsæld og hamingja.

Ég hef nýhafið störf hjá Reykjanesbæ sem verkefnastjóri fjölmenningarmála. Hlutverk mitt er að styrkja og efla fjölmenningarsamfélag Reykjanesbæjar. Til þess að svo megi verða þurfum við að vinna verkið saman og óska ég hér með eftir liðsstyrk ykkar, kæru íbúar. Þær vikur sem ég hef verið í starfi hef ég fundið mikinn meðbyr með verkefninu og því hlakka ég til frekari starfa.

Eftirvænting íbúa Reykjanesbæjar eftir Ljósanótt hefur verið áþreifanleg síðustu vikurnar. Gleðin er systir eftirvæntingarinnar, látum hana fylgja.

Ljósanótt er svo sannarlega fjölmenningarleg fjölskylduhátíð.

 Sjáumst,

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir,
verkefnastjóri fjölmenningarmála
Velferðarsvið Reykjanesbæjar

Bjóðum alla velkomna á Ljósanótt. Ljósm. Reykjanesbær