Árgangagangan er einn af hápunktum Ljósanæturhátíðar. Ljósmynd: Víkurfréttir
Nú styttist í 19. Ljósanótt í Reykjanesbæ en hátíðin verður sett miðvikudaginn 29. ágúst nk. og lýkur sunnudagskvöldið 2. september. Auk hefðbundinna dagskrárliða verða að venju margar áhugaverðar nýjungar, ekki síst í skipulagi og umgjörð hátíðarinnar. Dagskrá er birt í heild sinni á vef Ljósanætur, www.ljosanott.is.
Setningarhátíðin í ár verður t.d. í Skrúðgarðinum seinni part miðvikudags en ekki við Myllubakkaskóla á fimmtudagsmorgni eins og áður. Akstur Fornbílaklúbbsins á laugardeginum verður aftur á dagskrá í góðu samstarfi við lögregluna. Árgangagangan, Blik í auga í Andrews Theater á Ásbrú og Heimatónleikar í gamla bænum verða á sínum stað. Einnig fjölmargar listsýningar og tónleikar að ónefndri glæsilegri dagskrá á tveimur sviðum og flugeldasýningu.
Eins og áður er búist við að fjöldi fólks heimsæki Reykjanesbæ þessa daga og kaupi hér margs konar vörur og þjónustu. Að auki taka bæjarbúar virkan þátt í hátíðinni, bæði sem gerendur og njótendur. Undirbúningur er á lokastigi og allt að verða klappað og klárt.
Reykjanesbær aðlaðandi valkostur
Auk þess að vera vettvangur margs konar menningarviðburða og skemmtunar er Ljósanótt mikilvægur hlekkur í langri keðju þjónustuþátta. Þeir gera Reykjanesbæ að aðlaðandi valkosti fyrir þá sem eru að ákveða hvar þeir vilja búa og starfa í náinni framtíð. Öflugt og skemmtilegt menningarlíf skiptir þar miklu máli auk fjölmargra annarra þátta eins og t.d. framboðs fjölbreyttra atvinnutækifæra, íbúðarhúsnæðis, gæði skóla, heilsugæslu og fleira. Allir þessir þættir, og margir fleiri, skipta þar miklu máli.
Ljósanótt kostar 20 milljónir
Heildarkostnaðaráætlun Ljósanætur í ár hljóðar uppá 20 milljónir króna í bein útgjöld fyrir utan alla óbeina vinnu og kostnað ýmissa stofnanna og starfsmanna Reykjanesbæjar, ríkisstofnanna og fyrirtækja. Þá er ótalin sjálfboðavinna og vinnuframlag fjölmargra einstaklinga, félagasamtaka og hópa sem gera hátíðina að því sem hún er. Eflaust væri hægt að gera betur og meira, kaupa dýrari skemmtikrafta, setja upp stærri sýningar, tónleika og bæta aðstöðu, en við drögum mörkin við þessa upphæð.
Fjárframlag úr bæjarsjóði Reykjanesbæjar er um helmingur af þessari upphæð. Það sem uppá vantar kemur frá fyrirtækjum. Mörg hver treysta á gott vinnuafl og vilja þess vegna leggja sitt af mörkum til þess að gera sveitarfélagið að aðlaðandi búsetukosti fyrir öflugt fólk. Önnur leggja hátíðinni lið og vilja veg hennar sem glæsilegastan til þess að draga hingað gesti víðsvegar að og þannig efla verslun og þjónustu. Veitinga- og skemmtistaðir auk verslana og þjónustuaðila njóta góðs af þeim tugþúsundum gesta sem eru í bænum þessa daga. Það er til mikils að vinna fyrir alla aðila að vel takist til.
Ljósanótt 20 ára á næsta ári
Á næsta ári, 2019, verður Ljósanótt haldin í 20. skipti. Hátíðin var fyrst haldin árið 2000, þegar Reykjavík var ein af Menningarborgum Evrópu og önnur sveitarfélög á Íslandi voru hvött til að gera eitthvað skemmtilegt af því tilefni. Í tilefni 20 ára afmælisins er þegar farið að skoða mögulegar breytingar og nýjungar. Meðal annars hvort rétt sé að færa upphafsstaði Árgangagöngunnar niður um 20 húsnúmer, þannig að fólk fætt 1950 hittist við Hafnargötu 30, o.s.frv. til þess að nýta götuna betur og stytta leiðina sem elstu þátttakendur í Árgangagöngunni þurfa að ganga á hátíðarsvæðið. Einnig hvað hægt sé að gera til að tengja þau 23% bæjarbúa, sem eru af öðru þjóðerni, betur við hátíðina og ef til vill gera hana að fjölmenningarhátíð að hluta.
Meira um það síðar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri