Loftgæðismæli bætt við í Heiðarhverfi og stefnt að íbúafundi fyrir jól

Horft yfir bæinn í átt að Helguvík.
Horft yfir bæinn í átt að Helguvík.

Á fundi bæjarráðs í morgun kom fram að loftgæðaeftirlit í bænum verði hert með nýrri mælistöð Umhverfisstofnunar í Heiðarhverfi. Þar með verða mælisstöðvarnar í bænum fjórar, í Heiðarhverfi, í Leiru, við Mánagrund og Fuglavík. Þrír síðastnefndu mælarnir eru í umsjón orkurannsókna Keilis. Jafnframt er stefnt að því að halda íbúafund um loftgæðismál og iðnaðaruppbyggingu í Helguvík á næstu vikum, m.a. með fulltrúum frá Umhverfisstofnun. Það næst vonandi fyrir jól.

Fulltrúar frá Umhverfisstofnun komu á fund bæjarráðs í morgun vegna loftmengunar frá kísilverksmiðju United Silicon (Usi eða Sameinað Sílikon), sem bæjarráð hefur lýst áhyggjum sínum yfir sem og bæjarbúar. Bæjarráð fól bæjarstjóra á fundi sínum í síðustu viku að óska eftir skýrslu frá Umhverfisstofnun um eftirlit með stofnuninni og fulltrúum hennar á fund bæjarráðs. Í skýrslunni kemur fram að stofnunin hafi orðið vör við gagnrýni um að staðsetning loftgæðamælistöðva í kringum kísilverksmiðju Usi hafi verið ákveðið út frá loftdreifilíkani „sem eitthvað er málum blandið hver reiknaði,“ eins og segir í skýrslunni. Þannig hafi verkfræðistofan COWI í Danmörku, sem upphaflega var skráð fyrir því, óskað eftir að nafn sitt væri tekið af skýrslunni „þar sem útreikningar hefðu ekki farið fram þar heldur gerðar af sérfræðingi hjá Stakksbraut 9, sem var upphaflegi handhafi starfsleyfis Sameinaðs Sílikons.“

Það er Skipulagsstofnun sem hefur yfirumsjón með mati á umhverfisáhrifum og heldur utan um ferlið en Umhverfisstofnun er umsagnaraðili í því ferli. Umhverfisstofnun mat heildarlosun meiri en fyrirtækið gerði upphaflega ráð fyrir. Bæjarráð bókaði í morgun að ljóst væri að frávik hafi orðið á viðmiðum verksmiðjunnar í Helguvík og ítrekaði áhyggjur sínar á stöðu mála þar. Ráðið telur jafnframt nauðsynlegt að fylgst verði náið með framvindunni á næstu dögum og vikum.

Fyrst um sinn mun Umhverfisstofnun mæla styrkleika brennisteinsdíoxíðs (SO2)  í umhverfinu og hugsanlega bæta við mæli í Heiðarhverfi til að mæla kolmónoxíð. „Þetta er fyrst og fremst hugsað sem aðgerð til að fjölga loftgæðamælum á meðan Sameinað Sílikon er í byrjunarfasa og mun Umhverfisstofnun meta framhaldið í ljósi niðurstaðna þeirra. Þá ber að geta þess að í Umhverfisvöktun Sameinaðs Sílikons eru ákvæði um að loftdreifilíkan verði endurreiknað eftir 1 ár í takt við þau veðurgögn og mæligögn sem nú er safnað á loftgæðamælum í Helguvík og í Leirunni", segir í skýrslunni.

Alls hafa um 50 ábendingar/kvartanir borist til Umhverfisstofnunar vegna kísilverksmiðjunnar og eru þær af margvíslegum toga, þó flestar vegna loft- og lyktarmengunar. Benti stofnunin á  að allar upplýsingar u m stöðu mála hjá USi sé að finna á heimasíðu stofnunarinnar, ust.is.