Forsvarsmenn þeirra sem fengu úthlutað.
Árleg úthlutun styrkja úr Manngildissjóði Reykjanesbæjar fór fram í Stapa í gær en þar voruafhentir styrkir og gengið frá samningum fyrir samtals 30 milljónir króna.
Hlutverk Manngildissjóðs er að veita fjárhagslegan stuðning, styrki og viðurkenningar til verkefna á sviði fræðslu, fjölskyldu- og forvarnarmála, menningar- og lista, umhverfismála, tómstunda- og íþróttamála eða til stuðnings verkefna í þágu mannræktar og aukins manngildis í Reykjanesbæ.
Undir Manngildissjóð falla m.a.: Íþróttasjóður, Tómstundasjóður, Listaverkasjóður, Menningarsjóður, Þróunarsjóður skóla, Forvarnarsjóður og Umhverfissjóður.
Við athöfnina var jafnframt skrifað undir samninga við menningar-, íþrótta- og tómstundafélög.
Manngildissjóður var stofnaður árið 2003 og hefur síðan verið stærsti einstaki styrktaraðili manngildisverkefna í Reykjanesbæ og þó víðar væri leitað. Yfirstjórn sjóðsins er í höndum Bæjarráðs Reykjanesbæjar en úthlutun fjármagns til einstakra verkefna er í höndum viðkomandi fagráða og nefnda á vegum bæjarfélagsins.
Að þessu sinni er gengið frá úthlutun að fjárhæð 30 milljónir króna sem skiptist þannig:
Til íþróttamála 12 milljónir
Þróunarsjóður skóla 5,8 milljónir
Menningarsjóður 4,5 milljónir
Tómstundasjóður 2,9 milljónir
Forvarnarsjóður 3,8 milljónir
Umhverfissjóður 1 milljón
Alls 76 verkefni fá úthlutun úr sjóðnum að þessu sinni en stjórn sjóðsins mun ákveða frekari úthlutun úr sjóðnum í tengslum við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010.