Meistari Jakob og Víkingaheimar

Frá Víkingaheimum.
Frá Víkingaheimum.

Hvað  eiga þessir tveir sameiginlegt? Sennilega fátt nema þó það mikilvæga atriði, að vera til á mörgum tungumálum.

Í kjölfar endurnýjunar á sýningum í Víkingaheimum eru nú allar sýningarnar á fjórum tungumálum og sumar á sex þar sem þær hafa nú verið þýddar á ensku, þýsku og frönsku auk þess sem tvær sýninganna eru að auki þýddar á norðurlandamál.

Víkingaheimar eru þannig vel í stakk búnir til að taka á móti ferðamannastraumnum sem þegar er hafinn af fullum þunga og eru Víkingaheimar tilvalinn áfangastaður fyrir ferðaþjónustuaðila og fólk með erlenda gesti í sumar. Nýverið útnefndi ferðatímaritið Lonely Planet Víkingaheima sem Top Choice eða „fyrsta valkost“ í nýútkominni Íslandsbók sinni, sem eru frábær meðmæli.

Gestum Víkingaheima fer nú mjög fjölgandi og Sveinn Björgvinsson umsjónarmaður hússins segir gesti einkar ánægða með að geta nú fræðst um sýningarnar á eigin tungu. Alls eru fimm sýningar í húsinu, Örlög guðanna – sýning um norræna goðafræði, Landnám á Íslandi, Víkingar N-Atlantshafsins, Víkingaskipið Íslendingur og Söguslóðir á Íslandi.

Víkingaheimar eru opnir alla daga í sumar frá kl. 11.00 – 18.00. Nánari upplýsingar á vikingaheimar.is eða í síma 422-2000.