Hér má sjá mengunina á tjörnunum við Fitjar. Ljósmyndin er tekin af Facebook síðunni Reykjanesbær-gerum góðan bæ bentri, innlegg frá Lindu Björk Kvaran.
Nokkur umræða hefur verið um mengun í Fitjatjörnum. Svo virðist sem hvítur lögur eða sápuvatn hafi verið að menga tjarnirnar að undanförnum. Haft var samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sem sér um mengunarvarnir á svæðinu og þaðan hefur okkur borist eftirfarandi tilkynning:
„Heilbrigðiseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni á mengun sem sást í skurði á Fitjum í Njarðvík. Mengunin stafar líklega af sápuvatni vegna bílþvotta á vegum fyrirtækis í nágrenninu. Niðurföll plansins þar sem þvotturinn fór fram eru tengd við regnvatnsfrárennsli bæjarins sem veitt er í fyrrnefndan skurð. Fyrirtækið hefur verið upplýst um að þvottur bíla verði að fara fram á plani sem tengt sé olíuskilju.“