Menningarheimar mætast er hátíð sem haldin verður á torginu fyrir framan ráðhús Reykjanesbæjar laugardaginn 1. júní frá kl. 13:00-16:00. Mikið verður um að vera, boðið verður upp á matarsmakk frá ýmsum heimshornum, hoppukastali verður á svæðinu ásamt andlitsmálun, í boði verður að fá henna tattoo, hægt að fara í jóga og fá ýmiskonar danskennslu.
Bæjarbúar eru sérstaklega hvattir til þátttöku til samsköpunar á listaverki fjölbreytileikans sem verður á bókasafninu, fólk getur komið og málað viðarplatta sem verða settir saman í eitt heildstætt listaverk fjölbreytileikans.
Bókasafnið mun opna sumarsýninguna „Náttúruupplifun fyrir börn og fjölskyldur“, Heimskonur hittast yfir kaffibolla og spjalli, krakkakosningar verða í boði og sumarlestraverkefnið verður sett af stað.
Reykjanesbær er kraftmikið fjölmenningarsamfélag sem er í stöðugum og örum vexti og alltaf á uppleið. Fjölmenningarhátíðin Menningarheimar mætast var haldin í fyrsta skipti á síðasta ári. Hátíðin er vettvangur til þess að sameina fólk og þjóðarbrot í gegnum mat, leik, sköpun og tónlist. Fjölmargar fjölskyldur og íbúar samfélagsins með ólíkan bakgrunn hafa komið saman og skipulagt viðburðinn, með það að leiðarljósi að viðburðurinn verði til þess að fagna fjölbreytileikanum þar sem tækifæri er fyrir alla til að koma saman og skemmta sér.
Hátíðin í ár er hluti af 30 ára afmælishátíð Reykjanesbæjar.
Frítt er á viðburðinn og öll hjartanlega velkomin.