Fulltrúar í ungmennaráði veturinn 2018-2019.
Ungmennaráð furðar sig á fjarvistarkerfi Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS), vill hafna mengandi stóriðju í Helguvík, vill meiri fræðslu, fleiri hreystibrautir í bæinn, ungmennagarð og að skátastarf verði áfram tryggt. Þetta var meðal þess sem kom fram á fyrsta fundi ráðsins með bæjarstjórn 16. október sl.
Í ungmennaráði starfa fulltrúar skóla, íþróttahreyfingar og tómstundastarfs í Reykjanesbæ. Þau hitta bæjarstjórn tvisvar á ári til að ræða málefni sem brenna á ungu fólki. Þau færa líka þakkir fyrir góða samvinnu og fjárveitingar liðinna ár. Á síðasta vetri var m.a. sett hraðaþrenging fyrir utan nýju bardagahöllina, eftir ábendingu frá ráðinu, lýsing við sparkvöll Njarðvíkurskóla bætt og starfræktur tómstundabíll fyrir félagsmiðstöðina Fjörheima.
Fjarvistarkerfi FS og mengandi stóriðja í Helguvík
Hermann Nökkvi formaður ungmennaráðs lýsti yfir miklum áhyggjum af fjarvistarkerfi Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann benti á að nemendur sem taka þátt í lýðræðisstarfi á borð við ungmennaráð, fá ekki leyfi frá skóla. Skiptir engu þó svo að þau ætli að sækja ráðstefnur fyrir hönd ungs fólks og séu þannig að taka þátt í óformlegu námi. Að auki ræddi Hermann Nökkvi um alvarleika þess að nemendur í FS sem veikjast fái ekki leyfi nema þeir séu frá í þrjá daga eða fleiri. Jafnvel þá fái nemendur aðeins 50% leyfi. Hermann lýsti einnig hugmyndum að ungmennagarði við hlið hólsins í Dalshverfi.
Hlynur Snær varaformaður ungmennaráðs lýsti yfir áhyggjum sínum af mengandi stóriðju í Helguvík. Biðlaði hann til bæjarfulltrúa að hafna allri stóriðju sem gæti mögulega haft slæmar afleiðingar á heilsu og velferð fólks. Einnig talaði Hlynur um að hans mati „fáránlega" staðsetningu á strætóskýlinu sem stendur við slaufuna út úr Innri Njarðvíkurhverfi fyrir rútuna sem gengur til Reykjavíkur. Hlyni fannst brýnt að breyta þessu fyrir nemendur og þá sem jafnvel vilja bara huga betur að umhverfinu.
Umhverfismál, heilsa, fræðsla og skátastarf
Anna Þrúður talaði um umhverfismál. Henni finnst skrýtið að allt frá leikskóla sé ungu fólki alltaf kennt að flokka og að fara vel með náttúruna. Hins vegar þegar skólagöngu ljúki þá sé í raun of lítið flokkað og lítið gert til að minnka mengun. Einnig vildi hún meiri fræðslu um matarsóun.
Andri Sævar var með kröftuga ræðu um heilsu og hreysti ungs fólks. Vildi hann fá fleiri hreystibrautir víðar um bæinn og láta laga þá sem fyrir eru. Andri vildi líka aukna fræðslu um markmiðasetningu og skipulag.
Haraldur Dýri hélt ræðu fyrir hönd skátanna og hrósaði skátastarfinu. Hann talaði um mikilvægi þess að halda félagsskapnum áfram vegna þess hversu skemmtilegt starfið sé. Skátarnir mismuni engum, sagði Haraldur Dýri, sama hver þú ert og hvernig félagsfærni þín er. Haraldur benti á það að í hópíþróttum séu t.d. 11 leikmenn og aðeins einn bolti en í skátunum séu 11 leikmenn og 11 boltar við hæfi hvers og eins.
Ísabella talaði um mikilvægi þess að bæta fræðslu um pólitík og fjármál í grunnskólum bæjarins. Á nýjum tímum þurfi ungt fólk að hafa góða kennslu um þessa hluti og krakkar þurfa að læra að mynda sína eigin sjálfstæðu skoðun. Benti hún á að margir krakkar kynnu ekki að lesa launaseðil og vissu ekki hvað hugtök eins og verðbólga og jafnvel skattar þýddu.
Með því að smella á þennan tengil má nálgast nánari upplýsingar um ungmennaráð