Minningar morgundagsins í Listasafni Reykjanesbæjar frá 12. mars til 24. apríl 2022
Meistaranemar á fyrsta ári í sýningagerð við Listaháskóla Íslands opna sýninguna Minningar morgundagsins í Listasafni Reykjanesbæjar, laugardaginn 12. mars nk. Þetta verður í annað sinn sem MA í sýningagerð vinnur með Listasafni Reykjanesbæjar að sýningarverkefni í safninu.
Þetta er glæsileg hópsýning sem setur fókusinn á framtíðina og tengslin við sögur, umhverfi og drauma okkar.
Meistaranemarnir og sýningarstjórarnir eru Iona Poldervaart, Sara Blöndal og Sunna Dagsdóttir.
Sex listamenn taka þátt í sýningunni að þessu sinni; Elnaz Mansouri, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Sarah Degenhardt, Sarah Finkle, Victoria Björk og Vikram Pradhan.
Minningar eru sögur fortíðarinnar og á hverjum degi sköpum við frásagnir sem breytast í minningar framtíðarinnar. Tækniframfarir síðustu ára hafa nú í enn meiri mæli áhrif á daglegt líf. Með sýningunni vilja sýningarstjórarnir varpa ljósi á það hvernig lífið gæti orðið í framtíðinni og velta vöngum yfir möguleikum nýrrar heimsmyndar. Þær varpa fram spurningum um tilgang allsnægta, mennskunnar og hvað teljist til lífs; höfum við stjórn á framtíð okkar - draumum okkar - nútímanum? Hvernig mótum við frásagnir okkar og hvernig tökumst við á við umhverfið? Hvernig upplifum við tíma og rúm? Getum við deilt rými til að dreyma? Hvernig munum við búa á morgun og hvers munum við minnast þegar við lítum til baka í framtíðinni?