Hér má sjá Myllana kynna vélmennið Myllu.
Myllarnir úr Myllubakkaskóla munu keppa í FIRST LEGO League keppninni sem fram fer í Háskólabíó laugardaginn 10. nóvember nk. Þema keppninnar í ár er „Á sporbaug“.
Myllarnir er hópur nemenda úr 9. bekk í Myllubakkaskóla. Kjarnann mynda nemendur sem hafa tvívegis keppt í FIRST LEGO League á undanförnum árum en fleiri áhugasamir hafa komið að. Myllunum hefur gengið fyrna vel. Árið 2016 unnu þau keppnina sem tryggði þeim keppnisrétt í Noregi. Árið 2017 sigruðu Myllarnir vélmennahluta keppninnar. Hópurinn fékk hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar árið 2017.
Lego keppnin reynir á margskonar hæfni. Hún snýst um að hanna, forrita, miðla og upplýsa á skýran og skilmerkilegan hátt. Nemendurnir þurfa að vera miklir hugsuðir, útsjónarsamir og listrænir með sterka liðsheild.
Reykjanesbær óskar Myllunum góðs gengis í FIRST LEGO League keppninni á laugardag.