Hafnargata hrein og litrík á fallegum degi
Það geta allir sammælst um það að hreinn bær sé fagur bær. Það sést ekki hvað síst í veðurblíðu eins og hún hefur verið í Reykjanesbæ undanfarna daga. Nú hvetur Reykjanesbæ bæjarbúa til þess að láta umhverfisvitundina ná út fyrir lóðarmörkin og leggja sitt af mörkum í hreinsun og fegrun bæjarins með því að taka til hendinni í nágrenninu. Umhverfisviðurkenningar verða veittar til íbúa og fyrirtækja sem eru að gera góða hluti í umhverfismálum.
Vinnuskóli Reykjanesbæjar og Hverfisvinir eru þeir aðilar á vegum Reykjanesbæjar sem sinna umhverfismálum, gróðursetningu, snyrtingu og hreinsun. Þrátt fyrir góðan vilja ná þessir aðilar aldrei að sinna öllum Reykjanesbæ og þá er íbúanna að hjálpa til. Það er hagur allra íbúa bæjarins að umhverfið sé snyrtilegt og að umhverfisvitundin nái út fyrir lóðarmörkin.
Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjufræðingur Reykjanesbæjar mun á næstu vikum taka á móti ábendingum frá íbúum um nágranna og fyrirtæki sem eru að gera góða hluti í umhverfismálum. Þetta geta verið fallegir garðar, vel heppnuð endurbygging á gömlum húsum, fegrun lóða og svæða umhverfis íbúðarhús eða fyrirtæki. Hægt er að senda ábendingar á netfangið berglind.asgeirsdottir@reykjanesbaer.is eða hringja í Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar í síma 420 3200, milli kl. 08:00 og 16:00.
Verðlaunaafhending fer fram við upphaf Ljósanæturhátíðar svo það er kjörið að nota tækifærið og koma bænum í sitt fínasta púss fyrir hátíðina. Munum að þetta er bærinn okkar og ábyrgðin okkar.