Þegar niðurstöður úr samræmdum prófum eru skoðaðar kemur í ljós að samband er á milli stærðar sveitarfélaga og árangurs á samræmdum könnunarprófum. Nemendur í sveitarfélögum með 5000 íbúa eða fleiri standa sig að jafnaði betur en nemendur í smærri sveitarfélögum. Munurinn er verulegur þar sem nemendur stóru sveitarfélaganna eru að meðaltali yfir landsmeðaltali en nemendur í litlu sveitarfélögunum eru að jafnaði töluvert undir landsmeðaltali. Þetta kemur fram þegar niðurstöður úr Skólavoginni eru skoðaðar, en Skólavogin er mælitæki sem ber saman skólastarf sveitarfélaga á ýmsum þáttum.
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar segir að margar ástæður geti verið að baki. Til dæmis séu atvinnutækifæri fyrir háskólamenntað fólk fleiri í stórum bæjarfélögum en smáum og íbúasamsetning þeirra því öðru vísi en smærri sveitarfélaga, en vitað er að samband er milli menntunar foreldra og námsárangurs. Sveitarfélög eins og Reykjanesbær og önnur stærri sveitarfélög búi að jafnaði við styrkari stjórnsýslu öflugri stefnumótun og betri sérfræðiþjónustu en smærri sveitarfélög og eigi einnig auðveldara með að laða til sín hæfa kennara en lítil afskekkt sveitarfélög. Gylfi Jón varar að lokum við að alhæfa um of út frá þessu sambandi. Auðvitað eru til lítil sveitarfélög þar sem nemendur eru að ná afbragðsárangri á þessum mælikvarða.