Úr kennslustund í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Hljómahöll er heill heimur út af fyrir sig. Þeir kraftar sem þar leysast úr læðingi og þeir möguleikar sem þar gefast vegna samlegðaráhrifa Hljómahallar, Rokksafns Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, eru miklir. Hljómahöll er vettvangur iðandi mannlífs tengdu tónlist og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, nemendur og starfsfólk, nýtur þeirrar hringiðu. Allt styður þetta hvað annað og efling menningarlífs í Reykjanesbæ í formi fjölgunar njótenda menningar og fjölgunar atvinnutækifæra tengdum tónlist, er óhjákvæmileg.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er sá vettvangur eða sú stofnun Reykjanesbæjar sem veitir flest atvinnutækifærin í tónlist. Tónlistarskólinn er jafnframt sá hvati sem nemendur skólans, sem standa á krossgötum eftir menntaskóla eða í tónlistarnámi sínu þurfa, til að sjá að tónlist, hvaða nafni sem hún nefnist, er afar áhugaverður og raunhæfur kostur til að leggja fyrir sig sem atvinnugrein. Hið nýja húsnæði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í Hljómahöll gefur nemendum skólans alveg nýja mynd af aðstöðu til tónlistarnáms og -iðkunar og setur nýjan standard á þá aðstöðu sem er samboðin tónlistarnemendum og kennurum þeirra. Sú hringiða tónlistarmannlífs sem samlegðaráhrifin innan Hljómahallar mynda, mun styðja þetta unga fólk í ákvörðun sinni að gera tónlist að atvinnu. Vonandi í fyllingu tímans, mun svo unga fólkið okkar koma til baka til Reykjanesbæjar og Tónlistarskólans sem atvinnumenn í tónlist og tónlistarkennslu.