Í dag átti sér stað formleg vígsla á nýju útisvæði sundmiðstöðvar Reykjanesbæjar á BAUN, barna- og ungmennahátíð bæjarins, sem hófst í gær. Markmiðið var að nýta útisvæðið betur og fjarlægja ónýtta steypta áhorfendapalla á vesturhluta svæðisins, bæta við tveimur heitum pottum ásamt köldum potti, skipta út gufuklefa, setja upp nýjan saunaklefa, bæta við og uppfæra útiklefa og síðast en ekki síst skipta út vatnsrennibraut sem komin var til ára sinna. Til að jafn umfangsmikil framkvæmd yrði að veruleika þurftu margir að koma að á ýmsum stigum verkefnisins. Þakkir eru færðar til allra fyrir sitt framlag í þágu íbúa Reykjanesbæjar.
Dagskrá vígslunnar var eftirfarandi:
- Lúðrasveit tónlistarskólans spilaði vel valin lög
- Ávarp bæjarstjóra Kjartan Más Kjartanssonar
- Birgir Már Bragason færði Má Gunnarssyni blómvönd fyrir að slá tæplega 30 ára gamalt heimsmet þegar hann synti 200 metra baksund á Íslandsmótinu í 50 metra laug þann 23 apríl sl.
- Nemendur í sjötta bekk úr Háaleitisskóla renndu sér niður nýju rennibrautina
- Athöfn lokið