Eftirfarandi var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 24. mars 2022.
Reykjanesbær og bandaríska fyrirtækið Almex USA Inc., í gegnum íslenskt dótturfélag, hafa náð samkomulagi um að skoða möguleika þess að setja upp umhverfisvæna endurvinnslu á áli í Helguvík. Almex USA Inc sérhæfir sig í framleiðslu á búnaði fyrir úrvinnslu og endurvinnslu á hágæða áli ásamt fjárfestingum í skyldum iðnaði, er leiðandi á sviði endurvinnslu léttmálma og með sérstöðu hvað varðar framleiðslu á áli fyrir geimferða- og flugvélaiðnaðinn. Telur fyrirtækið Ísland vera hentuga staðsetningu fyrir þessa starfsemi.
Um er að ræða umhverfisvæna starfsemi sem yrði hluti af sjálfbæru hringrásarhagkerfi og er áætluð ársframleiðsla 45.000 tonn í fyrri áfanga. Reiknað er með að starfsmenn verði um 60 þegar fullum afköstum er náð. Reykjanesbær horfir jafnframt til þess að afleidd tækifæri af slíkri starfsemi geti styrkt atvinnuþróun á svæðinu.
Verkefnið er i samræmi við þá stefnu Reykjanesbæjar að í Helguvík byggist upp iðnaður sem hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Markmið Reykjanesbæjar er að efla Helguvík sem iðnaðarsvæði sem styður við þá stefnu og hringrásarhagkerfið.
Bæjarráð heimilar Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsingu þess efnis.
Virðingarfyllst
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri