Nýtt og glæsilegt framreiðslueldhús hefur nú verið tekið í gagnið á Nesvöllum en hingað til hefur maturinn í þjónustumiðstöðinni verið aðsendur þangað. Fyrsta máltíðin var framreidd þann 1. apríl síðast liðinn og voru það kótelettur í raspi með öllu tilheyrandi sem gestum var boðið upp á. Eldhúsið mun elda um 200 matarskammta í hádeginu alla daga ársins en þeir sem njóta góðs af því eru íbúar og starfsmenn á Nesvöllum og Hlévangi auk gesta í þjónustumiðstöðinni.
Þjónustumiðjan á Nesvöllum býður nú upp á hádegisverð alla virka daga og til skoðunar er að bjóða hið sama um helgar.
Um það bil 120 manns starfa á hjúkrunarheimlinum á Nesvöllum og Hlévangi og þar með talið starfsmenn í eldhúsi.
Fyrsti íbúinn á Nesvöllum er Margrét Stefánsdóttir en hún flutti frá Garðvangi 16. mars s.l. og voru henni færð blóm og konfekt af tilefninu.
Á myndinni hér að ofan eru auk Margrétar, Hrönn Ljótsdóttir forstöðumaður, Þuríður Elíasdóttir deildarstjóri á Nesvöllum, Guðmundur Hallvarðsson stjórnarformaður Sjómannadagsráðs og Árni Sigfússon bæjarstjóri.