Hann er alltaf góður hafragrauturinn.
Reykjanesbær býður nemendum sínum nú upp á ókeypis hafragraut í grunnskólum bæjarins. Um tilraun er að ræða, þar sem ætlunin er að meta hversu margir muni nýta sér tilboð af þessu tagi og finna þá útfærslu sem best hentar til framtíðar, en ætlunin er að festa þetta fyrirkomulag í sessi til framtíðar takist vel til.
Í dag býðst nemendum að mæta fyrr og fá sér graut áður en kennsla hefst. Hafragrauturinn er einnig í boði í löngu frímínútunum að morgni fyrir þá sem það vilja. Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar segir að mikil ánægja sé meðal foreldra og nemenda með þessa tilraun. Fyrir þessu eru margvísleg lýðheilsufræðileg rök, hafragrautur er hollur og gefur kraftmiklum krökkum orku til að takast á við verkefni dagsins. Um verulega kjarabót virðst líka að ræða fyrir heimilin. Ég heyrði til dæmis af margra barna móður sem sagði að þetta sparaði henni um það bil 20 þúsund á mánuði, þar sem hún þyrfti ekki lengur að smyrja nesti á morgnana í sama mæli og áður.
Fyrstu tölur benda til að kostnaður af þessu sé mikið minni en við gerðum ráð fyrir í upphafi.