Í ljósi umræðu á ríkisstjórnarfundi þann 9. nóvember sl. vill bæjarstjórn Reykjanesbæjar vekja athygli á að öll aðstaða fyrir Landhelgisgæslu Íslands er fyrir hendi á Suðurnesjum.
Á Reykjanesi er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti. Stórt og fullkomið flugskýli er á Ásbrú en árið 2000 var það endurnýjað. Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar. Frá Reykjanesbæ er stutt á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, hafsvæðið í kringum Ísland. Þá má ætla að aukin starfsemi Landhelgisgæslunnar í kjölfar breytinga á starfsemi Varnarmálastofnunar, kalli á stærra húsnæði og nálægð við þau tæki og tól sem heyra undir hana.
Með flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar myndi ríkisvaldið sýna í verki stuðning sinn við endurreisn atvinnulífs á Suðurnesjum auk þess að gera Landhelgisgæsluna að mun öflugri stofnun til hagsbóta fyrir sjófarendur, sjúklinga og landsmenn alla.
Lýsir Reykjanesbær sig reiðubúinn til samstarfs við Innanríkisráðuneytið um hagkvæmnisathugun og undirbúning þess að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands.