Opnað var fyrir lóðaumsóknir í þriðja áfanga Dalshverfis síðastliðinn föstudag og viðbrögð létu ekki á sér standa. Mikil ásókn hefur verið í einbýli og par- og raðhúsin en einnig er töluverður áhugi er fyrir fjölbýlishúsalóðunum.
Markmið með skipulagi hverfisins voru að skapa fjölskylduvænt hverfi, með öruggum gönguleiðum, góðum tengslum við náttúru með grunnskólann og leikskóla í göngufæri. Íbúðastærðum er stillt í hóf og byggðin er lágreist en samt þétt sem býður upp á gott skjól og sólríka garða. þar sem hverfið er í jaðri byggðar eru góð tækifæri til útivistar í óspilltri náttúru.
Grunnskóli Dalshverfis, Stapaskóli er framsækinn bygging en þar verður grunn- og leikskóli, tónlistaskóli, sundlaug og bókasafn ásamt félagsmiðstöð allt undir einu þaki. Í þessum loka áfanga í uppbyggingu Dalshverfis verður annar leikskóli að auki. Svo vel ætti að vera búið að ungu fólki með börn í ungum bæ.