Mynd úr sýningu Guðjóns Ketilssonar, TEIKN, sem opnar í Listasal föstudaginn 15. febrúar.
Á föstudag kl. 18 verða þrjár nýjar sýningar opnaðar í Duus Safnahúsum, tvær á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og ein á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýningu á verkum Guðjóns Ketilssonar. Sýningin ber heitið TEIKN og sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson. Í sýningarskrá má m.a. sjá texta eftir Sjón. Listamaðurinn og sýningarstjórinn verða með leiðsögn sunnudaginn 10. mars kl.15.
Við sama tilefni verður opnuð í Bíósal sýning á ljósmyndum úr safneign Listasafnsins. Sýningin ber heitið LJÓS OG TÍMI og sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.
Einnig opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar ljósmyndasýninguna FÓLK Í KAUPSTAÐ. Á sýningunni gefur að líta örlítið sýnishorn af ljósmyndum í eigu Byggðasafnsins. Þema sýningarinnar er fólk og fjölbreytt mannlíf í kaupstaðnum Keflavík og nágrannabænum Njarðvík á árunum 1944 til 1994. Sýningarstjóri og ljósmyndari verða með leiðsögn sunnudaginn 10. mars kl.14.
Safnið er opið alla daga frá 12-17 og sýningarnar standa til 22. apríl.