Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Ásgeir Einarsson framkvæmdastjóri Egils Árnasonar ehf.
Miðvikudaginn 16. ágúst undirrituðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Ásgeir Einarsson framkvæmdastjóri Egils Árnasonar samning um kaup og niðurlagningu parketgólfs í nýjan íþróttasal við Stapaskóla. Um er að ræða um kaup á rúmlega 1.300 fermetrum af parketi og undirlagi. Reiknað er með að vinna við niðurlagningu gólfsins hefjist í lok október og ljúki á nokkrum vikum.
Parketið sem varð fyrir valinu í íþróttahús Stapaskóla er hágæða keppnisgólf frá Junkers sem er vottað af Alþjóða körfuknattleikssambandinu (FIBA) og er með 25 ára ábyrgð frá framleiðanda. Sambærileg parket hafa verið lögð í u.þ.b. 40 íþróttahús á Íslandi með góðum árangri. Vert er að nefna að sambærileg íþróttagólf hafa verið notuð í mörgum af helstu alþjóðlegu stórmótum körfuboltans undanfarin ár. Gólfið hefur einstaka fjöðrun og hentar bæði fyrir yngri og eldri keppnishópa. Gert er ráð fyrir sjö körfuboltavöllum, tveimur blakvöllum og átta badmintonvöllum og handboltavelli í nýjum íþróttasal Stapaskóla.