Prjónahópur í Skapandi samveru í Bókasafninu.
Þann 31. janúar hefst í Bókasafni Reykjanesbæjar nýtt samfélagsverkefni sem heitir Prjónahlýja. Um er að ræða prjónahóp sem mun prjóna vettlinga, sokka og jafnvel húfur fyrir leikskólabörn Reykjanesbæjar. Samverustund verður síðasta þriðjudag í hverjum mánuði klukkan 14:00 og verður garn útvegað á staðnum.
Anna Margrét Ólafsdóttir verkefnastýra í Bókasafni Reykjanesbæjar segist ekki vilja til þess hugsa að í leikskólunum séu kaldir fætur, hendur eða kalt höfuð vegna þess að sokkar eða vettlingar hafi týnst í amstri dagsins eða bara gleymst. „Við könnumst flest við það hversu óþægilegt það er að vera kalt á höndum, fótum og höfði. Litlir vettlingar, sokkar og húfur týnast gjarnan og gleymast. Því viljum við safna saman allri hlýjunni sem við getum prjónað og gefa til leikskólanna sem þetta þiggja. Við óskum jafnframt eftir þátttakendum í þetta samfélagsverkefni,“ segir Anna Margrét.
Hægt verður að nálgast einfaldar uppskriftir í Bókasafninu og garn. Anna Margrét segir að starfsfólk safnsins taki þakklátum höndum við afgangs garni sem leynist heima og að sjálfsögðu vettlingum, sokkum og húfum. „Við í safninu viljum endilega nýta krafta samfélagsins/gesta okkar og okkar sjálfra í góðar gjörðir. Síðasta þriðjudag hvers mánaðar klukkan 14.00 verður samverustund í safninu þar sem hægt er að koma með vettlinga, sokka, húfur eða garn og/eða setjast niður og prjóna góðum hópi.“ Hún segir Ráðhúskaffi bjóða upp á 15% afslátt af veitingum á þessum tímum.
Fyrsta samverustundin verður þriðjudaginn 31. janúar klukkan 14.00. Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá Önnu Margréti verkefnisstýru Bókasafns Reykjanesbæjar í gegnum netfangið anna.m.olafsdottir@reykjanesbaer.is.