Ráðgjafar í velferðarþjónustu á Suðurnesjum styrkja sig í ofbeldismálum

Suðurhlíð er ný miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum, miðstöðin er staðsett í sama húsnæði og Heilsugæslan Höfða við Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ.
Inga Dóra Jónsdóttir félagsráðgjafi er teymisstýra Suðurhliðar og leiðir starfsemina ásamt því að veita ráðgjöf og leiðsögn til þeirra sem þangað leita eftir ráðgjöf.

Í janúar bauð Inga Dóra bauð ráðgjöfum í velferðarþjónustu í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ í fræðslu og vinnustofu. Þar kynnti Inga Dóra starfsemi Suðurhlíðar, ráðgjafarnir miðluðu reynslu sinni og settu sér markmið hvernig hægt sé að skima betur fyrir ofbeldi og hvernig best er að nálgast þolendur ofbeldis.

Það er mikil reynsla hjá starfsfólki í velferðarþjónustu þegar kemur að ofbeldismálum en í þessum svo veigamiklum málaflokki er fræðsla og samtal fagfólks mikilvægur þáttur í því samfélagslega verkefni sem baráttan við ofbeldi er.

Með þessari sameiginlegri vinnustofu sem Suðurhlíð bauð upp á gafst tækifæri til frekari samvinnu og samstarfs fagfólks til þess að efla þjónustu á sviði velferðar við íbúa á Suðurnesjum. Samvinnan minnti einnig á það hvað samtalið er mikilvægt og var vinnustofan hvetjandi þáttur til áframhaldandi samstarfs milli sveitarfélaganna í málefnum tengdum velferðarþjónustu á Suðurnesjum.

Ef að þú eða einhver sem þú þekkir býr við eða hefur orðið fyrir ofbeldi þá viljum við hvetja þig til þess að panta viðtal hjá Suðurhlíð í síma 591-7085 eða á sudurhlid.is.

Ef þú beitir ofbeldi viljum við benda þér á að leita til Heimilisfriðar sem er meðferðar og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, sími 555-3020 eða á heimilisfridur.is.