Ráðhúsið flytur 17. mars

Ráðhús Reykjanesbæjar mun flytja starfsemi sína tímabundið að Grænásbraut 910 á Ásbrú (Keili) meðan gerðar verða endurbætur á húsnæðinu.

Á næstu mánuðum fara fram umfangsmiklar endurbætur á húsnæði ráðhússins við Tjarnargötu 12. Húsið er komið til ára sinna, og nauðsynlegt er að ráðast í endurnýjun á ýmsum þáttum, þar á meðal, loftræstikerfi, neysluvatnslögnum, raflögnum, lýsingu og brunavörnum. Einnig verður skrifstofurýmum breytt til að bæta nýtni hússins og þau uppfærð til að mæta nútímakröfum.

Á meðan á framkvæmdum stendur mun starfsemi ráðhússins flytjast á Grænásbraut 910 á Ásbrú þar sem skrifstofurnar munu deila húsnæði með Keili.

Síðasti opnunardagur ráðhússins á Tjarnargötu 12 verður föstudaginn 14. mars, en þjónustuverið lokar þann dag kl. 13:00. Ráðhúsið opnar á Grænásbraut 910 mánudaginn 17. mars kl. 13:00. Gengið er inn um aðalinngang hússins að framan.

Utan þessara tveggja daga helst opnunartími þjónustuvers óbreyttur, frá kl. 9:00 til 15:00 alla virka daga.

Á meðan flutningum stendur má þó gera ráð fyrir einhverjum truflunum á þjónustu einstakra sviða, en reynt verður að lágmarka þær eins og kostur er.

Við minnum á að hægt er að hafa samband í gegnum síma 421 6700, með tölvupósti á reykjanesbaer@reykjanesbaer.is, eða með því að nýta netspjallið á heimasíðu sveitarfélagsins, reykjanesbaer.is.