Allir grunnskólarnir fengu þessa gómsætu köku í tilefni endurmenntunardaganna.
Með opnum hug og gleði í hjarta - Rafrænir endurmenntunardagar fræðsluskrifstofu
Hinir árlegu endurmenntunardagar fræðsluskrifstofunnar fyrir starfsfólk grunnskólanna eru haldnir rafrænir frá 11. – 24. ágúst. Erindin eru fjölbreytt en þau fjalla öll á einhvern hátt um menntastefnuna okkar Með opnum hug og gleði í hjarta. Ráðstefnan er liður í innleiðingu menntastefnunnar.
Fræðsluskrifstofan sótti um styrk og fékk úr endurmenntunarsjóði grunnskóla fyrir þeirri endurmenntun sem skrifstofan býður starfsfólki grunnskólanna upp á. Styrkurinn hljóðar uppá 2.112.000 kr.
Endurmenntunarverkefnið er í raun tvíþætt. Annars vegar er um að ræða rafrænu endurmenntunardagana og hins vegar er um að ræða röð námskeiða og fræðsluerinda sem haldin verða jafnt og þétt yfir skólaárið 2022-2023. Endurmenntunarverkefnið samanstendur því af mörgum mislöngum námskeiðum og fræðsluerindum sem flokkuð eru í fimm þætti sem mynda stefnuáherslur menntastefnu Reykjanesbæjar: a) Mér líður vel – þar sem áherslan er á vellíðan, sjálfstraust, heilbrigði og gleði b) Allir með – þar sem áherslan er á félagsfærni, samvinnu, virðingu og samkennd c) Opnum hugann – þar sem áherslan er á læsi, gagnrýna hugsun, viðsýni og tjáningu d) Sköpunargleði – þar sem áherslan er á sköpun, frumkvæði, forvitni og nýsköpun e) Við og jörðin – þar sem áherslan er á sjálfbærni, umhverfisvitund, frelsi og jöfnuð.
Markmiðið með endurmenntuninni er að styðja kennara í því að ígrunda starf sitt, opna augu þeirra fyrir nýjum leiðum og bæta við þekkingu þeirra með það að markmiði að ná sem bestum árangri fyrir nemendur og samfélagið allt. Lögð er áhersla á að kennarar séu ekki einungis í því hlutverki að vera þiggjendur þekkingar og fræðslu heldur virkir þátttakendur í að miðla og deila sinni reynslu og þekkingu í anda faglegs menntasamfélags.
Dagskrá rafrænu endurmenntunardaganna