Ársreikningur Reykjanesbæjar 2012 sýnir að rekstur gekk vel.
Ársreikningur Reykjanesbæjar 2012
Rekstrarafgangur í bæjarsjóði
Rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar gekk vel á árinu 2012. Bæjarsjóður, sem sinnir öllum almennum rekstri bæjarins, skilar rekstrarafgangi fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) um 889 milljónir króna sem er um 10,21% af tekjum. Eftir afskriftir og fjármagnsliði er afgangur af rekstri um 708 milljónir króna sem er um 8,14% af tekjum. Þetta er umfram væntingar þar sem fjárhagsáætlun 2012 ásamt viðaukum gerði ráð fyrir 191 milljón króna í rekstrarafgang bæjarsjóðs.
Eignir bæjarsjóðs eru bókfærðar á 29.805 milljónir króna, þar af eru veltufjármunir 2.469 milljónir kr. Skuldir bæjarsjóðs með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 22.334 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 2.366 milljónir króna.
Vaxtaberandi langtímaskuldir bæjarsjóðs við lánastofnanir eru 2.852 milljónir króna, fjármagnstekjuskattur er 704 milljónir króna og heildar leiguskuldbindingar eru 13.618 milljónir króna. Reykjanesbær greiddi niður á árinu 2012 eina erlenda lánið sitt og er því ekki lengur með neinar erlendar skuldbindingar. Samtals lækkuðu skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs um 3.488 milljónir króna milli ára.
Hreint veltufé frá rekstri er um 358 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri er um 300 milljónir króna og nam hækkun þess um 241 milljón króna milli ára.
Fjárfestingarhreyfingar fyrir bæjarsjóð eru 2.128 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar eru 2.423 milljónir króna á árinu. Fyrir bæjarsjóð voru engin ný lán tekin né nein endurfjármögnun á árinu 2012.
Veltufjárhlutfall er 1,04 og hækkar úr 0,50 frá árinu 2011.
Bókfært eigið fé hjá bæjarsjóði er 7.472 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hækkar á milli ára úr 20,76% í 25,07%.
Rekstrarhalli samstæðu lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir
Þrátt fyrir að enn séu vandamál með fjármögnun vegna framkvæmda við Helguvíkurhöfn og taprekstur Reykjaneshafnar um 667 milljónir króna er rekstrarniðurstaða samstæðu betri en gert var ráð fyrir. Rekstrarafgangur samstæðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er um 2.803 milljónir króna sem er um 20,15% af tekjum. Eftir afskriftir og fjármagnsliði er tap af rekstri samstæðu um 433 milljónir króna. Þetta er umfram væntingar þar sem í fjárhagsáætlun 2012 var gert ráð fyrir 492 milljón króna rekstrarhalla samstæðu. Það er ánægjulegt að veltufjárhlutfall samstæðu hækkar úr 0,73 í 1,59 milli ára og eiginfjárhlutfall samstæðu hækkar úr 16,41% í 17,12%.
Ársreikningur Reykjanesbæjar