Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem nýlega tilkynnti um aukaframlög úr sjóðnum, telur Reykjanesbæ ekki í hópi sveitarfélaga sem þurfa sérstök aukaframlög vegna erfiðrar stöðu.
Til þess að sveitarfélög njóti sérstaks aukaframlags sem í heild er að upphæð kr. 350 milljónir þarf sveitarfélag ýmist að vera með hátt skuldahlutfall og þá veltufé frá rekstri undir 3%-7,5%, með lakari íbúaþróun en hjá Reykjavíkurborg árin 2007-2011 eða vegna sérstakra fjárhagserfiðleika þar sem Álftanes fellur eitt undir.
Reykjanesbær uppfyllir ekkert þessara skilyrða þrátt fyrir hátt skuldahlutfall og nýtur því ekki sérframlaga.
Þau 19 sveitarfélög sem njóta sérframlaga undir þessum liðum, ýmist vegna hás skuldahlutfalls og veltufjárvanda eða neikvæðrar íbúaþróunar, eru: Álftanes, Sandgerðisbær, Borgarbyggð, Grundafjarðarbær, Stykkishólmsbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Blönduósbær, Norðurþing, Langanesbyggð, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðarbyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað, Mýrdalshreppur og Rangárþing Ytra.
„Það er ánægjulegt að unnt er að veita þeim sveitarfélögum aukastuðning sem falla undir þessi skilyrði og enn ánægjulegra að Reykjanesbær, sem hefur fengið sinn skerf af fjölmiðlaumræðu vegna erfiðrar stöðu, skuli ekki metinn í þeim hópi“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri.