Stóri leikskóladagurinn verður haldinn í fimmta sinn þann 7. júní nk. Að þessu sinni er Reykjanesbær gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar og að sögn Ingibjargar Bryndísar leikskólafulltrúa Reykjanesbæjar munu sjö leikskólar úr Reykjanesbæ kynna starf sitt og þróunarverkefni ásamt Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Dagskráin fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur og Tjarnarbíói kl. 8:30 – 15:00
Deginum er ætlað að skapa vettvang þar sem leikskólafólk getur komið saman til að kynna hluta þeirra verkefna og hagnýtu hugmynda sem unnið er að í leikskólunum. Kynningarbásar leikskólanna verða í Ráðhúsi Reykjavíkur og samhliða þeim verður boðið upp á fyrirlestra í Tjarnarbíó.
Að deginum standa Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, samtök áhugafólks um skólaþróun,Rann Ung, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda í leikskóla.