Reykjanesbær hefur nú formlega hlotið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag frá UNICEF á Íslandi. Af því tilefni fór fram sérstök athöfn í Bergi, Hljómahöll, í gær miðvikudaginn 29. janúar. Reykjanesbær er eitt af fyrstu sveitarfélögum landsins til að hljóta þessa viðurkenningu, sem gildir til þriggja ára.
Barnvænt sveitarfélag er verkefni hjá UNICEF sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi en sáttmálinn var lögfestur á Íslandi árið 2013. Innleiðing verkefnisins hófst formlega vorið 2020 þegar Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri undirritaði samstarfssamning ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra og Birnu Þórarnsdóttir framkvæmdastýru UNICEF. Settur var verkefnastjóri yfir verkefninu og innleiðingunni og voru það Hjörtur Már Sigurðsson og síðar Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir sem sáu um verkefnastjórn. Fjölmargir einstaklingar lögðu sitt af mörkum, þar á meðal kjörnir fulltrúar, starfsfólk bæjarins, ungmennaráð og íbúar sveitarfélagsins. Markmiðið hefur verið að gera Reykjanesbæ að betri stað fyrir börn og ungmenni og gefa rödd þeirra vægi í stjórnsýslunni.
Við athöfnina fluttu Valgerður Pálsdóttir fulltrúi bæjarráðs, fulltrúar frá ungmennaráði Reykjanesbæjar og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi ávörp. Auk þess var tónlistaratriði frá ungmennum af Suðurnesjum, í hljómsveitinni DEMO. Að lokinni athöfn gátu gestir notið létta veitinga í tilefni dagsins.
„Það er ómetanlegt að finna hvernig bæjarfélagið stendur saman með það markmið að bæta samfélagið fyrir okkur unga fólkið og þar með fyrir okkur öll,“ sagði Hermann Borgar formaður ungmennaráðs. „Viðurkenningin sem við fáum í dag er áminning um mikilvægi þess að halda áfram á þessari vegferð. Verkefnið Barnvænt sveitarfélag hefur sýnt okkur að breytingar verða til þegar hlustað er á börn og ungmenni og þeim gefin tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið.“
Þessi viðurkenning er mikilvægur áfangi í starfi Reykjanesbæjar að því að tryggja réttindi barna og ungmenna í samfélaginu.