Reykjanesbær skrifaði undir samninga við félagsmálaráðuneytið þann 15. janúar 2021 um samþætta þjónustu við flóttafólk. Þar með varð Reykjanesbær fyrsta sveitarfélagið til þess að ganga að þessum samningum sem snúa fyrst og fremst að því að veita öllu flóttafólki sambærilega þjónustu óháð búsetu þess og og hvernig komu þess til landsins var háttað.
Reykjanesbær hefur frá árinu 2004 verið leiðandi sveitarfélag á Íslandi í þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Sú sérhæfing hefur leitt af sér að sveitarfélagið hefur jafnframt verið leiðandi í þjónustu við flóttafólk sem hefur komið á eigin vegum. Fram til þessa hefur almennt verið meira og betra utanumhald fyrir flóttafólk sem hefur komið í hópum í boði ríkisstjórnarinnar en það sem hefur komið á eigin vegum. Nú verður unnið að markvissari stuðningi við flóttafólk eftir að umsækjendur fá leyfi til dvalar á Íslandi.
Innan skamms verður auglýst eftir sérfræðingum til þess að vinna sérstaklega að málefnum flóttafólks hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar í nánu samstarfi við aðra þjónustuaðila, eins og skóla og heilsugæslu.
Reykjanesbær fagnar þessari framþróun í málefnum flóttafólks og þeim tækifærum sem samningurinn veitir til bættrar velferðarþjónustu.