Reykjanesbær hyggst vera í forystu bæjarfélaga til að stuðla að notkun vistvænnar orku í samgöngum. Markmiðið er að innan fimm ára verði öll samgöngutæki sem bærinn nýtir, svo sem almenningsvagnar og þjónustubílar, knúnir vistvænum orkugjöfum. Leitað verður samstarfs við helstu fyrirtæki sem tengjast Reykjanesbæ. Verkefninu verður áfangaskipt m.a. þannig að ákveðin hverfi eða svæði, eins og Ásbrú, verða helguð vistvænum samgöngum. Mikilvægt er að nýta vel þá vistvænu orkugjafa sem til staðar eru s.s. metan en um leið ber að hvetja til frekari framþróunar á öðrum vistvænum orkugjöfum í samgöngutæki s.s. vistvænu metanóli og raforku.
Þátttaka í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands er að mati forsvarsmanna Reykjanesbæjar mikilvægur liður í að efla vitund almennings um framtíðarlausnir á sviði vistvænna orkugjafa fyrir samgöngutæki, sem eru nær okkur í tíma en margir ætla.
EVEN hf. stendur að þjóðarátaki um uppbyggingu heildarkerfis sem gerir rafbílavæðingu Íslands mögulega.
Verkefnið byggir á þátttöku lykilfyrirtækja og stofnana í samfélaginu, auk ríkis og sveitarfélaga, sem stuðla þannig að nýtingu raforku í samgöngum , þjóðinni til heilla. Þátttakendur eiga það sameiginlegt að vilja axla samfélagslega ábyrgð. Með þátttöku í verkefninu senda þeir skýr skilaboð til samfélagsins, sinna birgja, samstarfsaðila og viðskiptavina um gildi þess fyrir þjóðfélagið að rafbílavæðing Íslands verði að veruleika.
Reykjanesbær hefur haft á stefnuskrá sinni að rafbílavæðast og hóf af því tilefni vinnu á liðnu ári við verkefnið Rafvæddur Reykjanesbær. Verkefnið gengur út á það að fá lykilstofnanir og fyrirtæki í sveitarfélaginu með í sameiginlega vegferð til þess að nýta raforku í samgöngum. Nú hefur Reykjanesbær ákveðið að fella Rafvæddan Reykjanesbæ inn í þjóðarátakið um rafbílavæðingu Íslands. Munu sveitarfélagið og þjóðarátakið vinna saman að rafbílavæðingu Reykjanesbæjar á sama hátt og þjóðarátakið gerir um land allt. Þjóðarátakið mun alfarið sjá um framkvæmd líkt og annars staðar með stuðningi sveitarfélagsins.
Þátttaka Reykjanesbæjar í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands útilokar ekki þátttöku í öðrum verkefnum sem stuðla að notkun innlendrar orku sem er megininntak þjóðarátaksins. &Iacu