Verkefnið „Römpum upp Ísland“ er með það markmið að koma upp þúsund nýjum römpum um allt Ísland á næstu fjórum árum. Forsvarsmenn verkefnisins hafa einsett sér að gera þúsund veitingastaði og verslanir í einkaeigu, þar sem aðgengi er ábótavant, aðgengilegar hreyfihömluðum fyrir 10. mars 2026. Þetta verður allt saman gert í góðri samvinnu við sveitarfélög, húseigendur og íbúa.
Reykjanesbær sóttist eftir samstarfi við Römpum upp Ísland og erum við mjög stolt að greina frá því að samstarfið er hafið. Það er okkur hjartans mál að stuðla að jafnrétti og tryggja aðgengi fyrir alla í bænum okkar og á það ekki síst við um verslanir, veitingarstaði og aðra þjónustu.
Framkvæmdir hófust hér í Reykjanesbæ síðastliðinn föstudag á Hafnargötunni en reynt verður eftir bestu getu tryggja gott aðgengi á meðan vinnu stendur. Þetta er þarft og gott verkefni sem gaman verður að fylgjast með.